Laugar spa og bryllup

Ó mæ ó mæ. Var að koma úr dekri á Laugum spa og þvílíkur unaður! Fékk í útskriftargjöf frá Göggu, Billu, Óla og fjölskyldum dekurpakka fyrir hendur og fætur, 140 mínútur. Við Gagga frænka skelltum okkur svo saman í dag og erum hreinlega í sælunni. Vorum saman í herbergi, sem var bara snilld og þvílíkt dúllað við mann. Kertaljós, vatn, heitt te og róleg tónlist. Tveir dásamlegir snyrtifræðingar, Lukka og Galina sem sáu um okkur. Fórum inn klukkan hálf fimm og út að verða hálf átta! Mæli eindregið með þessu. Er svona líka fín núna með brúðarlakkið á fingrum og "french" á táslunum! Þetta var alveg dásemd.
Annars er nóg að gera. Byrjuð að vinna og ýmslegt sem þarf að græja og gera svona síðustu dagana fyrir brúðkaup. Er að reyna að vera með 8 hendur þessa dagana svo ég nái að gera allt sem gera þarf. Hef þetta þess vegna ekki lengra í bili, best að koma sér að verki.
Hendi einhverju hérna inn þegar ég verð orðin frú ;)


Heimleið

Framlengdi tveggja daga stoppið mitt í Grímsey í 7 daga stoppCool Voða gott alltaf að vera hérna. Ætla nú samt að halda heim í Kópavoginn í kvöld og fara að undirbúa eitthvað og gera. Dreymdi í fyrrinótt að ég var komin í brúðarkjólinn þegar einhver kom hlaupandi til mín og spurði hvort ég vissi ekki að það væri hálftími í brúðkaup og ég ekki farin í sturtu eða búin að kaupa mér skó!! Kannski áminning um að drífa sig heim og kaupa skóna!

Eggert kom heim frá New York í morgun. Var úti í sólarhring og Bjarni bróðir fór með honum. Skilst þeim hafi lítið leiðst í ferðinni. Ég hef allavega heyrt óvananlega lítið í honum síðustu dagaWink Þangað til reyndar í morgun að þeir voru komnir heim og Bjarni sofnaður, þá var hringt í mig hahaGrin

Svo er víst bara farið að styttast í vinnu! Ó mæ, mæting eftir ellefu daga. Ég er orðin letilífinu vön og líkar það velBlush Held kannski bara að ég reyni að ná mér í frama á sumarfrísbrautinni hahaTounge Nei, nei, það verður ósköp gott að fara að vinna....(skrifa þetta bara til að líta betur út, meina þetta ekki!!!Grin)

Örfáir tímar eftir í eyjunni minni, best að eyða þeim ekki framan við tölvuna! ´Til later


Verslunarmannahelgin í eyju...

Er ekki mál málanna að vera í eyjum um versló???LoL Ég allavega skellti mér til Grímseyjar í dag og ætla að vera allavega fram á sunnudag. Alltaf jafn dásamlega gott að koma heim, vildi bara ég gæti stoppað lengur.

Frekar fámennt í eyjunni. Ég er heima í Sólbrekku með pabba, mömmu, Konna, Birnu og Gunnari Árna. Held það séu kannski 20 manns í eyjunni fyrir utan okkurWink Þannig að það verða bara rólegheit um helgina.......ekki það að ég sé eitthvað fræg fyrir eitthvað annaðTounge

Síðasta föstudag var ég gæsuð! Stelpulufsunum tókst að koma fröken tortrygginni á óvart hahaWoundering Skemmti mér KONUNGLEGA í 12 tíma. Frábær dagur í alla staði með frábærum vinkonumInLove Knús á ykkur allar, þið eruð ÆÐIGrin

Styttist óðum í daginn stóra. Verð orðin gift kona áður en ég veit afInLove


ÉG Á BRÚÐARKJÓL!!!

Fann kjólinn minn áðanGrin Alveg í skýjunum hérna. Var nú ekki búin að gera mér neitt of miklar vonir og ákveðin í að kaupa mér alls ekki kjól bara til að kaupa kjól. Varð að falla fyrir honum.........og ég steinláCool Lét setja hvítt plast yfir hann svo minn heittelskaði sæi hann nú ekki.........

Annars er yndislegt veður í Toronto og við búin að rölta aðeins um. Fórum upp í CN Tower, sem er tæplega 600 metra hár turn. Fórum reyndar bara upp í 350 metra hæð, höfðum ekki tíma fyrir meira, en það var alveg nóg get ég sagt ykkur heheLoL Ferlega gaman. Ég stóð við lyftudyrnar á uppleiðinni og þær eru úr gleri......það var nú eiginlega mest scary parturinn.........fyrir utan reyndar að þegar við vorum komin upp prófuðum við að standa á glergólfi sem er þar. Horfir svo bara á það sem er að gerast 350 metrum neðan við tærnar á þérUndecided Ég náði reyndar ekki að skoða mannlífið þarna niðri mikið þar sem ég stóð á glerinu í rétt um það bil 8 sekúndurBlush

En frábær dagur, mín í skýjunumInLove


Toronto, Kanada

Komin til Kanada og er að fara að máta brúðarkjóla eftir 4 tímaWink Lentum hér um kvöldmat í gær og fórum út að borða þegar komið var miðnætti á Íslandi til að fagna fimm ára afmælinu okkar sem er einmitt í dagInLove Fórum á FRÁBÆRAN veitingastað hérna rétt hjá hótelinu, Biagio. Fengum ofboðslega góðan mat og frábæra þjónustu. Alveg dásamlegt kvöldHeart

Flughetjan ég fer svo aftur í flugvél í kvöld til að fljúga heim..........aftur í 6 tíma í vél. Lentum í svona ALVÖRU ókyrrð í svona 5-6 mínútur á leiðinni út í gær, LANGMESTA ókyrrð sem ég hef upplifað og vá hvað ég var engin hetjaCrying Var alvarlega að hugsa um að hafa bara samband við Eimskip og koma heim með þeimTounge Gat nú samt huggað við mig það eftir á að áhöfnin var hin rólegasta og ekkert þeirra komið í björgunarvesti Wink Þau sögðu mér að svona mikil ókyrrð væri ekkert algeng, en teldist nú samt ekki til alvarlegra tíðindaTounge

Jæja, best að fara að hafa sig af stað, ætlum að reyna að sjá aðeins af borginni í dag, það er pickup til að fara heim klukkan 7 í kvöld.

Innilega til hamingju með yndislega prinsinn ykkar hann Odd Atla Hrafnhildur og GummiSmile og innilega til hamingju með yndislegu prinsessuna ykkar Dagur og BryndísSmile


Úlalala.....þau ætla að gifta sig!!!

Da! Ég hlýt að vera heimsins öflugasti bloggari hahaha....
Nóg annað að gera á sumrin en að dundast í tölvunni. Mamma og pabbi voru hjá okkur í eina og hálfa viku kringum útskriftina og það var náttúrulega frábært að hafa fólkið mitt hjá mér. Pabbi og Eggert hömuðust í golfi meðan við mamma sinntum búðum og heimsóknum ;)
Við hjónaleysurnar skelltum okkur svo í bústað í Brekkuskógi til tengdamömmu, Sigrúnar og Marcel. Fengum frábært veður og golfið var stundað grimmt (hjá Eggert og Marcel þ.e.a.s.). Ég fjárfesti í forláta veiðigræju, þ.e. golfkúluveiðara, sem kom sér afar vel í ferðinni. Golfvöllurinn við Geysi fyrirgefur lítið og áin hirðir margar kúlur ;) Þá kom sér vel að vera sjómannsdóttir með veiðarann á lofti hehe.....
Grímseyjarferð var svo farin í byrjun mánaðarins og 11 dögum eytt í eyjunni minni góðu í faðmi fjölskyldunnar. Enginn er golfvöllurinn við heimskautsbauginn svo Eggert varð bara að skella sér að skjóta með Konna bróður og honum leiddist það lítið!
Nú erum við komin suður og á leið til Toronto á mánudaginn. Þar verður stoppað í einn dag og verður kapphlaup að leita sér að brúðarkjól því parið ætlar víst að ganga í hjónaband þann 24. ágúst næstkomandi! Já, haldið ykkur fast!
Svo er nú það.....

Í fréttum er þetta helst.......

Iss, Björk vinkona búin að blogga tvisvar sinnum um helgina svo mér er víst óhætt að skrifa eitthvað hér inn....
Huldan mín Hrönn er á suðurlandinu um helgina og skruppum við því í gær í "góða" (óheyrilega mikla vatnsveðrinu) að skoða nýja bústaðinn þeirra Elínar og Kidda sem er rétt við Geysi. Ferðin var í alla staði bráðskemmtileg, frábært að hitta Elínu, Kidda og sætustu krílin þeirra, bústaðurinn alveg rosalega fallegur og skemmtilegur og svo skemmtum við nöfnur okkur óheyrilega vel á leiðinni. Kolla frænka nöfnu minnar kom með okkur og átti hún nokkur golden moments, er ekki frá því hún sé skyld mömmu, Stellu og Helgu Fríði sem eru líka einstaklega orðheppnar... ;) Verð að nefna dæmi (feel free to kill me Lilla mín) þegar hún Helga Fríður mín bað mig um að lesa yfir ræðu sem hún hafði skrifað á "hundahlaupum"..... Áttum við nöfnur okkar moments líka, en hún Hulda mín var sannfærð um það þegar við vorum hjá Þingvallavatni að við ættum að beygja til vinstri hjá skiltinu sem sagði "Uxahryggur" til að komast á Laugarvatn. Eitthvað efaðist mín þar sem á skiltinu fyrir neðan (sem vísaði í sömu átt) mátti lesa "Húsafell". Þykist ég ágætlega að mér í íslenskri landafræði og nokkuð föst á því að Laugarvatn er ekki í Borgarfirði, en það er Húsafell hins vegar. Nafna mín var hins vegar alveg viss og tjáði mér að hún hefði meira að segja komið þessa sömu leið eitt sinn eigi fyrir löngu þegar hún var að koma frá Laugarvatni....hmmm. Full grunsemda sagðist ég treysta henni fullkomlega, en spurði hana engu að síður hvort ég mætti nú ekki samt hringja í Elínu og Kidda. Kiddi svaraði símanum og treystir nafna mín honum klárlega betur en mér þar sem hún tók orð hans undir eins trúanleg og sneri við á punktinum. Komumst við svo um síðir á leiðarenda.
Afi & amma í Garði og pabbi & mamma á leiðinni suður í vikunni. Ætla víst ekki að missa af því að stelpudruslan útskrifist loks úr háskólanámi á fertugsaldri....held þau trúi þessu ekki nema sjá þetta með eigin augum! Útskriftarkjóllinn fundinn og á að fara í skóleiðangur á morgun. Stefnan líka að finna einhvern vafning undir kjólinn sem lætur mig líta út fyrir að vera gasalega slank og pen.....eða svona allt að því....verð fyrir vikið að æfa mig í að halda niðri í mér andanum tímunum saman fram að útskrift....
Svo er það bryllup hjá Keflavíkur Erlunni og Jóhanni. Get ekk beðið...finnst brúðkaup svooo skemmtileg...samt erum við Eggert minn að hugsa um að gifta okkur kannski bara hjá sýslumanni...
Sumarið komið og við bæði í fríi....jey, bara dásemd. Bíð bara eftir sólinni. Ætlum að stunda golfið grimmt í sumar. Erum að leita að kennara til að frúin geti æft blessaða sveifluna sína, ég á víst ekki að líta út fyrir að vera að dansa polka þegar ég er að slá upphafshöggin.....hmmm.
Well, that´s it for now,
Huldan

SUMARFRÍ!!!

Já, svei mér þá! Prófið ógurlega síðasta mánudag (bíð enn eftir að fá út úr því) og svo var síðasta verkefni mínu í Kennaraháskóla Íslands skilað kl. rúmlega 23 í kvöld :)
Jey, ég gæti ekki verið glaðari.
Verkefnið sem Eggert var að fljúga rann út um mánaðarmótinn svo hann er kominn heim :) Tóm gleði á bænum.
Flutningar með tendgamömmu á morgun og svo útskriftin hans Dags míns Óskarssonar verðandi föður milli 17 og 19 á morgun. Talaði við hann áðan og þá stóð minn í pönnukökubakstri og mamma hans úti í húsbíl að setja á perutertu ;)
Jæja, ég nenni ekki að skrifa meir, var að skila 18 blaðsíðna rannsóknarritgerð og komin með ullu á lyklaborðinu, fyrir utan að toppstykkið er alveg að brenna yfir.
Over and out,
Huldan

Læri, læri, tækifæri

Maður á víst að vera að læra svo það er upplagt að henda nokkrum orðum hérna inn!
Ég keyrði Eggert í pick up áðan. Hann kemur ekki heim fyrr en 4. júní. Verður að fljúga milli London og Ghana þangað til. Mér finnst hundleiðinlegt að vera ein heima.....en þetta er víst upplagt tækifæri til að einhenda sér yfir skruddurnar og gera lokatilraun til að troða einhverju inn í hausinn á mér!
Á laugardagsmorguninn rúntaði ég upp á Keflavíkurflugvöll að sækja Hrafnhildi, Gumma og Jakob Mána sem voru að koma til landsins. Ekki amalegar móttökurnar sem ég fékk frá Jakobi snúlla þegar hann hentist í fangið á mér og gaf mér risaknús :) Bara sætur. Svo þegar við vorum komin heim og allir sofnaðir nema við tvö settist ég hjá honum í sófann að horfa á teiknimynd. Heyrist þá ekki í litla snúðinum "Þú veist ekki hvað ég elska þig mikið". Er hægt að bræða mann meira???
Jæja, ég ætla að byrja að berja einhverju inn í heilabúið á mér, ekki veitir af.
´Til next time

Sól, sól skín á mig

Já, búið að vera sumar hér í nokkrar vikur, en eitthvað breyttist það seinnipartinn í gær þegar byrjaði að hvessa og rigna. Kannski bara gott þar sem ég á enn eftir eitt 25% verkefni, eitt 30%, eitt 35% og eitt próf. Ágætt þá að vera bara inni í rigningu og roki ekki satt?
Sumarbústaðarferðin var alveg frábær. Ég kom reyndar með alla Viking Lite bjórana mína heim aftur hehe. Ég var svo hrikalega kvefuð og hálf slöpp að mig langaði eiginlega ekki í vín. Svo voru stelpurnar þrjár allar ódrykkjuhæfar! Jórunn og Harpa óléttar og Beta með Iðunni á brjósti. Svo strákarnir fengu alveg að sjá um þá hliðina.
Annars var rosalega skemmtilegur lokaverkefnis hittingur hjá henni Ólöfu snillingi á miðvikudagskvöldið. Hún bauð í sjávaréttarsúpu og hvítvín. Dásamleg súpa og dásamlegt vínið....og bjórinn....og kaffið með Baileys.....alveg þangað til klukkan hálf fjögur um nóttina þegar allt vildi út um munninn aftur. Á á á og ekki var fimmtudagurinn mér góður. Miðvikudagskvöldið var hins vegar bráðskemmtilegt alveg þarna til hálf fjögur ;) Stelpurnar bara snillingar og við skemmtum okkur vægast sagt konunglega.
Jæja, spurning um að snúa sér aftur að verkefninu. Búin að baka, skúra, þvo þvott og ýmislegt fleira í dag sem ég ætti ekki að vera að gera.
Hilsen,
Huldan

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband